Um Gunnar Karl
Gunnar Karl Haraldsson var fæddur árið 1994 og ólst upp í Vestmannaeyjum. Hann greindist mjög ungur með taugasjúkdóminn Neurofibromatosis (NF1) sem hafði mikil áhrif á hans líf og lífsgæði.
Gunnar Karl var mikill baráttumaður fyrir réttindum fatlaðs fólks þar sem hann vakti gjarnan athygli á hvar mætti bæta aðgengi. Hann var einnig sannur Eyjapeyji, vinamargur og sérstakur stuðningsmaður Liverpool og ÍBV.
Þrátt fyrir mótlæti af ýmsum toga hélt Gunnar Karl ávallt í gleðina og jákvæðnina og lét fátt stoppa sig. Hann var mjög virkur í tómstundastarfi og prófaði hinar ýmsu íþróttir. En það var Reykjadalur sem var honum ávallt ofarlega í huga og fór hann í sumardvöld þar mörg ár í röð og var svo starfsmaður þar á sumrin eftir að hann hóf háskólanám.
Hann flutti til Reykjavíkur haustið 2016 til að hefja nám í Tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla íslands þar sem hann útskrifaðist með BA gráðu 2020. Samhliða námi starfaði Gunnar Karl í félagsmiðstöð og fjallaði lokaverkefnið hans um aðgengi fyrir hreyfihamlaða að félagsmiðstöðvum Reykjavíkurborgar. Einnig var hann virkur í háskólaspólitíkinni þar sem hans helsta baráttumál var bætt hjólastóla aðgengi við Háskóla Íslands
Gunnar Karl var hálfnaður í mastersnámi þar sem hann stefndi á að verða framhaldsskólakennari.
Í október 2020 greindist Gunnar Karl með krabbamein sem hann lést úr 28. febrúar 2021.